Hagnýt atferlisgreining

Hagnýt atferlisgreining er vísindagrein runnin undan rifjum atferlisstefnu B. F. Skinners, eða róttækri atferlishyggju og tilraunalegri atferlisgreiningu. Í hagnýtri atferlisgreiningu er unnið að því að finna hvort samband er á milli hegðunar og umhverfisþáttar. Ef svo reynist vera, þá er unnið að breytingu á samspili hegðunar­innar við umhverfið til að hafa áhrif á hegðunina, þ.e.a.s. umhverfisþáttum er breytt til að stjórna sambandinu milli markhegðunar og umhverfisþátta. Inngrip er þá hannað á grunni þeirra lögmála sem hafa verið uppgötvuð að gilda um samspil hegðunar og umhverfis og rannsakað hefur verið í tilraunalegri atferlisgreiningu. Hægt er að hanna mjög áhrifarík inngrip þegar þau byggjast á því að brjóta upp samband á milli hegðunarinnar sem um ræðir (kallað markhegðun) og styrkingarinnar sem hefur viðhaldið henni.

Sambandið milli hegðunar og umhverfis er fundið með því að taka saman upplýsingar sem hægt er að fá í viðtölum við kennara og foreldra barns sem sýnir markhegðunina, með því að fylgjast með hegðuninni eiga sér stað þar sem hún á sér stað og skrá upplýsingar um hana og með virknigreiningu. Leitað er þá að upplýs­ingum um þá umhverfisþætti sem:

  • hugsanlega stjórna hegðuninni sem um ræðir
  • breyta áhrifum afleiðinga og aðdraganda hegðunar
  • auka líkurnar á að hegðunin eigi sér stað
  • viðhalda tíðni hegðunarinnar

Hægt er að fá þessar upplýsingar með því að greina í hvaða aðstæðum mark­hegðunin á sér helst stað, klukkan hvað, hvað gerist rétt á undan markhegðuninni, hvað gerist rétt á eftir markhegðuninni, hversu lengi varir hún, hvað hefur verið gert til að hafa áhrif á hana, hverju hafa þær aðgerðir skilað, hvenær á hegðunin sér ekki stað, hverjir eru viðstaddir þegar hún á sér stað og fleira. Með því að afla sem mest af upplýsingum um þessa þætti er hægt að hanna áhrifaríkt inngrip sem byggist á því að umhverfisþáttum er breytt og athugað hvort hegðunin breytist með breyttu samspili hegðunar og umhverfis. Nauðsynlegt er að afla upplýsinga um þessa þætti ekki eingöngu með viðtölum heldur með því að nýta sér mismunandi upplýsingaöflunarleiðir til að fá sem gleggsta mynd af samspili hegðunar og umhverfis.

Inngrip gengur oft út á, að barnið eða unglingurinn sem sýnir markhegðunina fær tækifæri til þess eða er kennt að komast í færi við hagstæðar afleiðingar sem viðhaldið hafa hegðuninni með því að sýna einhverja aðra hegðun, t.d. æskilega hegðun. Að auki fær barnið ekki lengur styrkingu fyrir óæskilegu hegðunina, þ.e. aldrei. Þannig er sambandið á milli markhegðunarinnar og styrkingarinnar rofið og erfiða hegðunin minnkar í tíðni eða hættir að birtast og önnur hegðun kemur í staðinn, sú sem hefur verið kennd eða og er sú sem fær styrkingu eftir að inngrip hefst.

Út frá atferlislögmálum hafa verið hannaðar námskrár, kennsluaðferðir og hegðunarstjórn í kennslustundum. Einnig hafa verið þróaðar leiðir til þess að stuðla að alhæfingu og viðhaldi náms sem hefur fengist með inngripinu. Rannsóknir á kennsluháttum hafa sýnt að námskrár og kennsluaðferðir sem byggja á lögmálum náms séu áhrifaríkar í kennslu allra barna. Í atferlisgreiningu er gengið út frá því að hægt sé að kenna öllum börnum, líka þeim sem hafa hlotið greiningu á röskun eða eru með einhverja fötlun enda hefur rannsóknagrunnurinn til þessa sýnt að þessar forsendur standast mjög vel.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is