Um hundrað leiðir í framhaldsnámi við Háskóla Íslands verða kynntar í streymi á netinu strax eftir páska en umsóknarfrestur um framhaldsnám hefur verið framlengdur til 20 maí.
Hið nýja þverfræðilega nám í hagnýtri atferlisgreiningu verður kynnt fimmtudaginn 16. apríl kl. 14 á Heilbrigðisvísindasviði og mánudaginn 20. apríl kl. 14 á Menntavísindasviði.
Markmiðið hagnýtrar atferlisgreiningar er að mennta fagfólk með sérþekkingu og færni til að beita atferlisgreiningu á árangursríkan hátt í starfi. Megináhersla er lögð á að veita nemendum hagnýta þekkingu og starfsþjálfun sem býr þá undir störf með fjölbreyttum hópum og einstaklingum, þar á meðal börnum með hegðunarerfiðleika, námserfiðleika, einhverfu og/eða þroskafrávik. Að námi loknu munu nemendur meðal annars hafa góða þekkingu á hugmyndafræði og aðferðum atferlisgreiningar til að starfa bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra fagaðila.
Námið er þverfræðilegt og skipulagt í samstarfi Sálfræðideildar og Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði.
Dagskrá um fjarkynningu á framhaldsnámsleiðum við HÍ 15.-21. apríl má finna hér.