Bakgrunnur

Átakið byggist á rannsókn sem Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, dósent í í atferlisgreiningu og atferlismeðferð við Sálfræðideild Háskóla Íslands, og nemendur hennar gerðu fyrir nokkrum árum. Markmiðið var að kanna hvort hægt væri að koma í veg fyrir að foreldrar settu börn sín ofan í innkaupakerrur en slíkt er afar hættulegt og slasast fjölmörg börn árlega eftir að hafa dottið úr innkaupakerru. Í rannsókninni var sérstöku spjaldi með mynd af barni í innkaupakerru innan í rauðum hring með bannmerki (líkt og í umferðarmerki) komið fyrir í innkaupakerrum fjögurra verslana á höfuðborgarsvæðinu. Á spjaldinu stóð jafnframt:  „Vinsamlegast setjið börn ekki ofan í innkaupakerrurnar“. Fylgst var með viðskiptavinum með börn bæði áður en spjöldin voru sett í kerrurnar, á meðan spjöldin voru í kerrunum og eftir að þau höfðu verið fjarlægð og því kannað hvort spjöldin hefðu áhrif á hegðun foreldra. Í ljós kom að mun færri foreldrar settu börn sín í kerrurnar þegar spjaldið var í þeim en á samanburðartímabilunum, hegðunin næstum hvarf. Þetta bendir til þess að inngripið sem var notað hafi haft áhrif á þessa hegðun.

Rannsóknin vakti athygli forstöðumanna forvarna hjá Sjóvá sem létu í samstarfi við Zuilmu Gabríelu útbúa eins spjöld og notuð voru í rannsókninni. Þau voru m.a. sett í kerrur í verslun Krónunnar. Verið er að rannsaka langtímaáhrif slíks inngrips á þeirri hegðun fólks að setja börn í innkaupakerrur. Vonast er til að fleiri verslanir sláist í hópinn og sjái hag sinn í því að koma upp sams konar spjöldum í innkaupakerrum sínum og draga þar með úr slysahættu.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is