Aferlisstefnan gerir ráð fyrir að hegðun fari að lögmálum þar sem aðdragandi hegðunar auki eða minnki líkur á að hún eigi sér stað vegna fyrri tengsla hegðunar við afleiðingu sem hefur fylgt henni. Afleiðing hegðunarinnar eykur tíðni hennar eða minnkar eftir því hvort afleiðingin er hagstæð eða óhagstæð. Styrking kallast hver sá umhverfisþáttur sem fylgir hegðun og eykur hana. Refsing kallast sá umhverfisþáttur sem fylgir hegðun og minnkar hana. Þegar afleiðing hegðunar hefur þau áhrif að hegðunin eykst eða minnkar er talað um virka skilyrðingu.
Mögulegt er að auka tíðni æskilegrar hegðunar með því að láta hagstæða afleiðingu, þ.e. styrkingu, koma á eftir henni en minnka tíðni óæskilegrar hegðunar með því að láta refsingu koma fram að henni lokinni eða með því að fjarlægja styrkingu sem hefur verið fyrir hendi, kallast það slokknun hegðunar. Við slokknun, þ.e. fjarlæging styrkis sem hefur fylgt hegðun, verður fyrst aukning hegðunar áður en hún minnkar og verður oftast að gera ráðstafanir til að takast á við aukninguna sem verður fyrst. Notkun virkrar skilyrðingar á hegðunarvanda hefur verið mjög áhrifarík leið til að minnka tíðni óæskilegrar hegðunar en auka tíðni æskilegrar hegðunar. Rannsóknir hafa verið stundaðar í hagnýtri atferlisgreiningu í yfir 50 ár og ekki leikur nokkur vafi á áhrifamátt aðferðanna sem hafa verið þróuð til að fást við hegðunarvanda.
Það sem er mikilvægt við sjónarhól atferlisgreiningunnar er að ekki aðeins er gert ráð fyrir að þeir umhverfisþættir sem eigi sér stað rétt á undan og á eftir hegðuninni og spili saman við hegðunina hafi áhrif á hana heldur er einnig gert ráð fyrir að þeir umhverfisþættir sem hafa spilað saman við hegðun lífverunnar fyrr á lífsleiðinni hafi áhrif á líkurnar á að hún eigi sér stað. Gengið er út frá því að samspil hegðunar og umhverfis hafi áhrif á líkurnar á að hegðun eigi sér stað og þess vegna sé hægt að breyta hegðun með því að hafa áhrif á umhverfið sem hefur spilar saman við hegðunina. Markvisst inngrip af þessu tagi hefur mikil áhrif en endurtekning þarf til að ná árangri og þess vegna má ekki dæma árangur út frá örfáum skiptum. Inngrip verður að vera veitt í mörg skipti í röð áður en hægt er að sjá breytingar á hegðun.