Hlutverk og stefna

Reglur um rannsóknastofa í atferlisgreiningu við Sálfræðistofnun Háskóla Íslands

1. gr. Almennt

Rannsóknastofa í atferlisgreiningu við Háskóla Íslands er hluti af Sálfræðistofnun Háskóla Íslands (Sálfræðistofnun) samkvæmt 3. tl. 4. mgr. 27. gr. reglna nr. 569/2009 um Háskóla Íslands og 4. gr. reglna um Sálfræðistofnun nr. 554/2010 um Sálfræðistofnun.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk rannsóknastofu í atferlisgreiningu er að stuðla að eflingu atferlisgreiningar í því skyni að auka rannsóknastarf á sviðinu með því að:

a) vinna að fræðslu um atferlisgreiningu

b) eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum 

c) sinna þjónustuverkefnum 

d) hafa samstarf innan Háskóla Íslands og við aðrar innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn á rannsóknasviði stofunnar

e) veita nemum í rannsóknanámi aðstöðu og búnað til rannsóknastarfa og veita nemum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknarstörf á vegum stofunnar eftir því sem unnt er

f) kynna niðurstöður rannsókna m.a. með útgáfu fræðibóka og -greina, gangast fyrir fræðilegum námskeiðum, fyrirlestrum, málþingum og ráðstefnum

g) vera ráðgefandi og taka þátt í almennri umræðu 

 3. gr. Aðstaða

Sálfræðistofnun lætur stofunni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað, eftir því sem kostur er.

4. gr. Stofustjórn

Stofustjóri er Zuilma Gabriela Sigurðardóttir við Sálfræðideild og ber hann jafnt almenna sem fjárhagslega ábyrgð á rekstri stofunnar gagnvart stjórn Sálfræðistofnunar, ber ábyrgð á daglegum rekstri, stýrir rannsóknarverkefnum og hefur eftirlit með störfum starfsmanna. 

5. gr. Verkefni stofustjórnar

Stofustjóri tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofuna og setur henni frekari starfsreglur. Hann sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofunnar. Stofustjóri ber ábyrgð á fjármálum stofunnar gagnvart Sálfræðistofnun. Honum er heimilt að ráða forstöðumann eða aðra starfsmenn eftir því sem ástæður og efni gefa til. 

Skýrslur, álitsgerðir, viðhorf, skoðanir eða annað sambærilegt efni skulu auðkennd rannsóknastofu í atferlisgreinnigu og stofuna skal kenna við Sálfræðistofnun þegar það á við. Óheimilt er að kenna slíkt efni við Sálfræðistofnun beint nema stjórn Sálfræðistofnunar, forstöðumaður eða stjórnarformaður í umboði hennar samþykki.

6. gr. Fjármál

Stofan hefur sjálfstætt fjárhald en reikningshald hennar skal vera hluti af reikningshaldi Sálfræðistofnunar. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu lagðar fyrir forstöðumann Sálfræðistofnunar til samþykktar eigi síðar en fyrir lok febrúarmánaðar. Uppgjör þarf að vera í jafnvægi eða með rekstrarafgangi nema stjórn Sálfræðistofnunar heimili annað. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is